Saturday, December 30, 2006

Lúxusvandamál

Vandamál fólks eru eins misjöfn og fólkið er margt. Þó ætla ég að leyfa mér að fullyrða að vandamál þau sem ég þarf að stríða við þessa dagana flokkast undir allt, allt annað en vandamál. Mætti frekar kalla þetta ofdekur.
Vandamál 1: Um daginn fékk maðurinn minn að gjöf stóran pappakassa fleytifullan af ítölsku góðgæti. Í kassanum mátti meðal annars finna kaffi, sólþurrkaða tómata og papriku, sinnep, pasta og ýmislegt annað gott. Gjöfin skapaði vandamál því að plássið í eldhúsinu er afar takmarkað og það var einfaldlega ekki pláss fyrir allt þetta.
Vandamál 2: Heimsótti Magasin bæði í dag og í gær í þeim tilgangi að kaupa föt (það þarf nú einhver að styðja við þá Bónusfeðga). Karen Millen deildin var þó nokkrum flíkum fátækari eftir þessar heimsóknir mínar. Ég hjólaði heim á leið sæl og glöð með fenginn, en hvað gerðist þegar ég kom heim; ég hef varla pláss fyrir nýju fötin mín af því að það er bara einn fataskápur á heimilinu.
Ó mæ god... ég veit ekki hvað ég á að gera, hef ekki pláss fyrir ítalskar sælkeravörur og nýju flottu fötin mín....hvílíkt vandamál... það á enginn jafn bágt og ég.....
Ég skammast mín. Ekki nóg með það að maður sé svo lánsamur að tilheyra hinum vestræna heimi, þá tilheyrir maður líka þeim hluta hins vestræna heims sem hefur það best. Það er nefnilega til fólk sem hefur af því stöðugar áhyggjur hvort það fái eitthvað að borða í dag eða á morgun, sumt af þessu fólki veit vel að það fær ekkert að borða hvorki í dag né á morgun. Margt fólk á ekkert. Ekki neitt.
Og ég lít á það sem vandamál að hafa ekki nóg pláss fyrir allan lúxusinn.
Ef þetta er ekki óréttlæti, þá veit ég ekki hvað óréttlæti er. Ég hef svosem enga patentlausn á þessu óréttlæti heimsins, en hlýt þó að geta gert eitthvað í þessu, ekki satt?
Anna Lilja

Wednesday, December 27, 2006

Bratz

Jólum fylgja gjafir. Séu börn á heimilinu eru þessar gjafir oftar en ekki leikföng. Svo er það einnig á mínu heimili, en um jólin bættist all verulega við leikfangaeign systranna. Meðal þess sem við bættist voru 4 Bratz dúkkur, en dúkkur þessar eru með því ógeðfelldara sem ég hef augum litið. Þær eru eins og afkvæmi ET og mellu og fatnaðurinn sem þeim fylgir er eftir því, en einu fötin sem hægt er að fá á þetta eru hreinræktuð „Istedgadeföt”.
Að sjálfsögðu er ég ekki varnarlaust fórnarlamb markaðsaflanna og ég hefði hæglega getað sagt: „Þessu verður skilað eftir helgi.” En ég gerði það ekki, ástæðan var fyrst og fremst sú gleði sem dætur mínar upplifðu þegar þær fengu dúkkurnar. Önnur ástæða var að þar sem óskapnaðurinn var keyptur á Íslandi, þá gat ég ekki skilað þessu. Gott og vel. Ég leyfi dætrum mínum að leika sér með eftirlíkingar af ódýrum gleðikonum. Hvað varð annars um dúkkulísurnar?
Anna Lilja

Tuesday, December 26, 2006

Jólablogg 2

Horfði á Krøniken í gærkvöldi, Pelle býr í húsinu mínu eftir að hann skildi við Søs. Nágranni minn einn hafði haft af því töluverðar áhyggjur að húsið okkar myndi gegna hlutverki „slömms” í þáttunum. Honum hlýtur að vera létt núna, þetta hlýtur að eiga að vera frekar flott hús þar sem sjálfur bankdirektørinn er látinn búa þar.
Og við eigum ennþá Krøniken vasana sem leikmunadeild DR kom með og stillti upp í stofugluggann okkar. Reyndar báðum við þá um að koma að sækja þá, en þeir svöruðu því að það væri búið að því. Þannig að við erum eigendur tveggja seventís keramikvasa sem eru bara nokkuð flottir.
Ég er að lesa alveg frábæra bók; ævisögu Margrétar Frímannsdóttur. Flott skrifuð og í bókinni kemur ýmislegt áhugavert fram. Til dæmis það að Margrét þurfti svo sannarlega að berjast fyrir sinni stöðu í Alþýðubandalaginu. Auk þess að vera kona (sem er sjaldan til framdráttar í stjórnmálum) þá er hún algerlega ómenntuð og hennar aðalstarf var fiskvinnsla. Það var alls ekkert auðveldara fyrir konur að komast til metorða í þessum flokki bræðralags og jafnréttis en í öðrum stjórnmálaflokkum. Í bókinni segir Margrét að flokkurinn hafi verið duglegur við að ræða jafnrétti kynjanna, en þegar kom að því að framkvæma, þá hafi þetta verið orðin tóm.
En enn og aftur; frábær bók um frábæra konu. Mæli með henni.
Anna Lilja

Monday, December 25, 2006

Jólablogg

Baunasúpan óskar öllum unnendum sínum til sjávar og sveita gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Baunar hafa haft það gott það sem af er af jólum, undirrituð sótti íslenska messu í dag. Þar sem téður bauni fer sjaldan til guðsþjónustu, þá er hann í lítilli æfingu í þeim siðum og venjum sem í kirkjum tíðkast. Til dæmis þykir mér afar erfitt að átta mig á því hvenær á að standa upp og hvenær setjast má niður. Þó hef ég áttað mig á því að þegar presturinn þrumar: „Takið á móti postullegri blessun”, þá á maður að standa upp. Hvað er annars postulleg blessun?
Skrifað klukkan hálf sjö á jóladag
Anna Lilja
P.S.: Allir að horfa á „Krøniken” í kvöld, húsið mitt er þar í aðalhlutverki!

Friday, December 15, 2006

Hvað er eiginlega með hann Jóakim prins?

Í síðustu viku birtist hann stúrinn á svip utan á annað hvort „Se og hør” eða „Her og nu” undir fyrirsögninni „Einmana um jólin.” Verið var að gefa til kynna að vesalings prinsinn myndi eyða þessari mestu hátíð kristinna manna í einsemd og volæði.
Mikið óskaplega vorkenndi ég vesalings manninum og var farin að legga drög að því að bjóða honum til mín á jólunum í hangikét og tilbehør. En eins gott að ég gerði það ekki. Viti menn, þessa vikuna brosir nú Jóakim sínu breiðasta á forsíðum áðurnefndra blaða. Hann er víst tekinn saman aftur við franska gellu sem hann var í tygjum við áður en sagði henni upp sökum lausmælgi hennar við fjölmiðla.
Ergo: Jóakim prins er greinilega allt annað en einmana. Og ég sem var meira að segja komin með samviskubit yfir að hafa stolið myndinni af honum af barnum í Nýhöfn síðasta sumar...
Skjótt skipast veður í slúðurheimum !!!
Ritað á föstudagskvöldi klukkan hálf níu, Hrannar á jólahlaðborði (að svalla) í bænum og ég er að fara að horfa á Sleepless in Seattle :-)
Góða nótt kæru vinir til sjávar og sveita
Anna Lilja

Wednesday, December 13, 2006

Að halda "geðinu" gangandi

Hér koma nokkrar nýstárlegar leiðir til að halda geðinu góðu og lundinni léttri í skammdeginu


Ef einhver biður þig um að gera eitthvað, spurðu alltaf hvort hann vilji franskar með því

Settu ruslafötuna á skrifborðið og merktu hana; Póstur Inn

Byrjaðu allar setningar á ”samkvæmt því sem spámaðurinn segir”

Hoppaðu eins mikið og hægt er í stað þess að ganga

Spyrðu alla sem þú hittir hvers kyns þeir eru. Fáðu svo hláturskast þegar þú heyrir svarið

Segðu ”taka með” í hvert skipti sem þú kaupir mat í bílalúgu

Farðu á ljóðalestur, og spyrðu hversvegna ljóðin rími ekki

Öskraðu ”ég vann, ég vann” í hvert skipti sem þú tekur peninga út úr hraðbankanum

Góða skemmtun!

Lausnin er fundin!

Sumt er bara svo einfalt að maður hreinlega sér það ekki. Fyrr en því hreinlega lýstur niður í höfuðið á manni eins og eldingu.

Þannig hef ég fundið lausnina á jólastressi, hún er einföld.

Gerast Vottur Jehóva, þeir halda nebblega ekki jól!

Keep it simple ;)
Jónína

PS
því hefur einnig verið fleygt að ef vitringarnir þrír hefðu verið konur, hefðu gjafirnar verið; Bull, Ergelsi og Pirra
en það er önnur saga...

Jólastress, my ass

Skil ekki að fólk sé að stressa sig yfir jólunum. Ég meina, hvað er svona stressandi við það að borða góðan mat, klæða sig og sína í jólaföt og gefa gjafir? Hef aldrei stressað mig yfir stórhátíðum, ástæðan er ekki sú að ég haldi ekki upp á þær. Síður en svo. En ég tel að slíkar hátíðir séu til þess fallnar að njóta þeirra.
Eins einkennilegt og það nú virðist, þá er ekki allt samferðafólk mitt í lífinu sömu skoðunar. Það er mín tilfinning að fullt af fólki hafi ekkert mjög gaman af þessu. Þeim finnst jólahald vera kvöl og pína og geta ekki beðið eftir því að ósköpunum linni. Og þetta eru yfirleitt þeir sem baka 15 sortir af (óætum) smákökum, skipta um eldhúsinnréttingu um miðjan mánuðinn, flokka allar sínar veraldlegar eigur niður eftir stafrófsröð, þrykkja sinn eigin jólapappír, búa til pappír í jólakortin og skipta um maka. Allt í desember. Hvað á svo að gera hina 11 mánuði ársins?
Þetta er líka fólkið sem spyr: „Ertu búin að öllu?” Þessi spurning heyrist all víða núna í desembermánuði, æ oftar er líða tekur á mánuðinn. Búin að öllu hverju? Leggjast inn á taugadeild sökum jólastreitu? Þoli ekki þessa spurningu og vona að ég muni aldrei spyrja hennar. Mér finnst eitthvað svo kellingalegt að spyrja svona.
Svo var ég einu sinni spurð: „Ertu tilbúin að taka á móti jólunum"? Innihaldið þessarar spurningar var í rauninni það sama og í spurningunni „Ertu búin að öllu?” , orðalagið var bara annað. Hvernig á maður að svara svona löguðu? „Nei, veistu hvað, ég held bara að ég haldi engin jól í ár. Ég hafði nefnilega ekki tíma til að þrífa eldhússkápana." Eða kannski: „Jól, hvað? Ég held sko engin jól fyrr en ég er búin að skipta út eldhúsinnréttingunni og mála stofuna."
En fyrir áhugasama kemur hér listi yfir það sem ég er búin að gera. Lesendur geta svo dæmt um hvort ég sé búin að „öllu” eða bara „sumu”. Skrifa og senda fimmtíuogeitthvað jólakort, baka 5 tegundir af smákökum, fara á 3 jólaböll, mála tugi af piparkökum, hlusta á milljón jólalög, stela einu sinni úr súkkulaðidagatalinu hennar Helgu (já, þetta er satt!!!), kaupa allar jólagjafir og pakka þeim inn, baka laufabrauð með Lovísu og Jónínu, horfa á þó nokkrar Disney-jólateiknimyndir, föndra alls konar jólaskraut, hengja upp jólaskraut, skoða jólaljós út um borg og bý og fleira og fleira. Og vitiði hvað; mér þótti allt þetta skemmtilegt og ég er ekki stressuð!
Eitt í viðbót: rakst á svo ljómandi góða uppskrift sem passar vel við jólabakstur Jónínu.
FINNSKT JÓLAGLÖGG
1 flaska vodka
1 grenigrein
Kælið vodka og setjið greinigrein út í. Hendið greininni og drekkið vodkað.
Skrifað af Önnu Lilju á mildum miðvikudegi klukkan 12:50

enn um jólin

Las thetta í vikunni og fannst thad svo ljómandi hressandi ad ég ákvad ad deila thví med ykkur:

Hefdu vitringarnir thrír verid kvenkyns hefdu their spurt til vegar, komid tímanlega á stadinn, tekid á móti Jesúbarninu, thrifid fjárhúsid, eldad pottrétt og komid med praktískar gjafir eins og bleyjur og slíkt. En their voru víst karlmenn....

Annars er jólaundirbúningur í fullum gangi á thessu heimili. Búid ad baka 2 smákökusortir (og önnur uppseld), jólatréd skreytt, búid ad kaupa allar gjafir og pakka theim inn.

Ég hef hugsad mér ad verda alltaf heimavinnandi í desember. Thad besta er svo ad ég tharf ekki einu sinni ad halda jólin heldur bara mæta í mat hjá tengdó og fleygja mér í sófann thegar thad er komid ad uppvaskinu.. thví thad er jú dónaskapur ad yfirtaka eldhús annarra kvenna.

jólakvedjur
-R

ps. íslenski jólasveinninn er víst thekktur fyrir ad koma degi of seint í Danmörku.

Monday, December 11, 2006

Um jólastress - endurskoðað, ritskoðað

Hverjum í veröldinni datt þetta með skóinn í hug???

...og hversvegna í andsk. hringir ekki einhversstaðar bjalla daginn sem skórinn fer í gluggann í fyrsta sinn???

ring, ring, ring: Reminder, skór í glugga, kaupa í skóinn.

ARG ARG ARG

Um jólastress

Líkt og flestra annarra námsmanna eru örlög mín þau, að lesa og skrifa og skila verkefnum rétt fyrir jól. Þetta er náttlega bara til að auka á stress þessa ágæta jólamánaðar, og sem betur fer svo mikið að á endanum keyrir yfir. Þess vegna sit ég núna og blogga, í stað þess að reyta hár mitt yfir ritgerðum. Ég er einfaldlega svo lömuð af stressi að ég næ ekki að stressa mig yfir nokkrum hlut.

Ég held að slæm áhrif stress á sál og líkama hljóti að vera stórlega orðum aukin því það sem ég er að upplifa er algert algleymi. Þetta er dásamlegt líkams- og sálarástand, og bætir hvern mann eins og best sést á mér.

Í ofanálag sit ég og hlusta á Eitt sumar á landinu bláa með hinu ágæta þjóðlagabandi Þrjú á Palli, og segi ekki annað að slatti af stress.is, glas af grandi, í bland við soldið arídúarí gera jólamánuðinn meira en þolanlegan.

Skál fyrir því
Jónína

Wednesday, December 06, 2006

Og enn af orðum

Dætur mínar eiga það til að sýna sínar verstu hliðar við morgunverðarborðið og morguninn í dag var engin undantekning. Þar sátu þær, þessar dúllur; önnur sagði "bjáni" og hin svaraði "fábjáni".
Hver er eiginlega munurinn á bjána og fábjána? Þetta forskeyti "fá", hvað stendur það fyrir? Þýðir það að viðkomandi sé dæma bjáni, semsagt alveg einstaklega mikill bjáni? Eða er merkingin kannski sú að viðkomandi sé bjáni í skipti, semsagt bjáni af og til? Sá sem þetta veit, má gjarnan svara.
Med venlig hilsen - klukkan 09:48 á miðvikudagsmorgni
Anna Lilja

Sunday, December 03, 2006

Orð dagsins

Mér finnst orð ákaflega skemmtileg, og er einlægur aðdáandi orðaleikja og orðaspila af öllu tagi. Eins og forfallinn Skraflari á ég meira segja til að telja saman í huganum stigagildi hinna ýmsu orða sem verða á vegi mínum.

Stundum er maður svo heppinn að á vegi manns verða , eða í eyrum manns lenda, alveg stórkostlega skemmtileg orð sem varpa með því sama upp ótrúlega skýrum myndum af fyrirbærinu sem þau eiga við um. Þau eignast hreinlega sjálfstætt líf, og verða alveg að heilu hugtaki útaf fyrir sig. Í síðustu viku skullu tvö slík á hlustunum á mér, og vöktu með mér ótvíræða kátínu, sem enn á eftir að rjátla af mér. Þetta eru orðin Mussuhlussa og Moði.

Nú hef ég ekki hugsað mér að gefa upp merkingu þessarra skemmtilegu orða, eða fyrir hvað þau standa, heldur láta lesendum eftir að búa sér til eigin hugarmyndir og hugmyndir að merkingu þeirra.

Er þó nokkuð hrædd um að hinn eini tryggi lesandi síðunnar sé sá sem orðin á :)

með kveðju frá íslenskri málstöð í Köben
JF