Wednesday, February 28, 2007

Dani dauðans

Jæja, er í þessum skrifuðum orðum að ganga frá sölu á bílnum mínum. Eftir þann gjörning stend ég bíllaus og eins og EKTA Dani. Ekta Danir eiga nefnilega ekki bíl, þeir fara allra sinna ferða á tveimur jafnfljótum, hjóli eða á vegum þess ágæta fyrirtækis Movia, sem rekur almenningssamgöngur (a.m.k. á Kaupmannahafnarsvæðinu).
Fyrir einstakling sem hefur löngum litið á bílinn sem þarfasta þjóninn, eiginlega sem yfirhöfn sem maður bregður sér í þegar farið er af bæ, þá verður þetta heilmikil breyting á lífinu og tilverunni. En alveg örugglega mjög holl breyting. Ég hef reyndar haft þó nokkuð aðlögunartímabil, hef farið flestra minna ferða á hjóli undanfarna mánuði, en hef samt alltaf haft aðgang að bíl. En það er alveg ljóst að með þessari breytingu færist ég vissulega nær hinum almenna Dana í lífsstíl og háttum. Er að breytast í Dana dauðans.
Hef reyndar fengið þá tilfinningu áður. Var einu sinni á leið í Irma, á hjóli, í stígvélum, með plastpoka í bakpokanum (svo ég þyrfti ekki að kaupa poka í búðinni) að fara að kaupa Suður-Jóska spægipylsu. Man eftir að ég hugsaði á leiðinni í búðina; mikið rosalega er ég orðin eitthvað dönsk. Nú er ég að verða danskari.
A.L.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home