Wednesday, December 13, 2006

Jólastress, my ass

Skil ekki að fólk sé að stressa sig yfir jólunum. Ég meina, hvað er svona stressandi við það að borða góðan mat, klæða sig og sína í jólaföt og gefa gjafir? Hef aldrei stressað mig yfir stórhátíðum, ástæðan er ekki sú að ég haldi ekki upp á þær. Síður en svo. En ég tel að slíkar hátíðir séu til þess fallnar að njóta þeirra.
Eins einkennilegt og það nú virðist, þá er ekki allt samferðafólk mitt í lífinu sömu skoðunar. Það er mín tilfinning að fullt af fólki hafi ekkert mjög gaman af þessu. Þeim finnst jólahald vera kvöl og pína og geta ekki beðið eftir því að ósköpunum linni. Og þetta eru yfirleitt þeir sem baka 15 sortir af (óætum) smákökum, skipta um eldhúsinnréttingu um miðjan mánuðinn, flokka allar sínar veraldlegar eigur niður eftir stafrófsröð, þrykkja sinn eigin jólapappír, búa til pappír í jólakortin og skipta um maka. Allt í desember. Hvað á svo að gera hina 11 mánuði ársins?
Þetta er líka fólkið sem spyr: „Ertu búin að öllu?” Þessi spurning heyrist all víða núna í desembermánuði, æ oftar er líða tekur á mánuðinn. Búin að öllu hverju? Leggjast inn á taugadeild sökum jólastreitu? Þoli ekki þessa spurningu og vona að ég muni aldrei spyrja hennar. Mér finnst eitthvað svo kellingalegt að spyrja svona.
Svo var ég einu sinni spurð: „Ertu tilbúin að taka á móti jólunum"? Innihaldið þessarar spurningar var í rauninni það sama og í spurningunni „Ertu búin að öllu?” , orðalagið var bara annað. Hvernig á maður að svara svona löguðu? „Nei, veistu hvað, ég held bara að ég haldi engin jól í ár. Ég hafði nefnilega ekki tíma til að þrífa eldhússkápana." Eða kannski: „Jól, hvað? Ég held sko engin jól fyrr en ég er búin að skipta út eldhúsinnréttingunni og mála stofuna."
En fyrir áhugasama kemur hér listi yfir það sem ég er búin að gera. Lesendur geta svo dæmt um hvort ég sé búin að „öllu” eða bara „sumu”. Skrifa og senda fimmtíuogeitthvað jólakort, baka 5 tegundir af smákökum, fara á 3 jólaböll, mála tugi af piparkökum, hlusta á milljón jólalög, stela einu sinni úr súkkulaðidagatalinu hennar Helgu (já, þetta er satt!!!), kaupa allar jólagjafir og pakka þeim inn, baka laufabrauð með Lovísu og Jónínu, horfa á þó nokkrar Disney-jólateiknimyndir, föndra alls konar jólaskraut, hengja upp jólaskraut, skoða jólaljós út um borg og bý og fleira og fleira. Og vitiði hvað; mér þótti allt þetta skemmtilegt og ég er ekki stressuð!
Eitt í viðbót: rakst á svo ljómandi góða uppskrift sem passar vel við jólabakstur Jónínu.
FINNSKT JÓLAGLÖGG
1 flaska vodka
1 grenigrein
Kælið vodka og setjið greinigrein út í. Hendið greininni og drekkið vodkað.
Skrifað af Önnu Lilju á mildum miðvikudegi klukkan 12:50

0 Comments:

Post a Comment

<< Home