Saturday, December 30, 2006

Lúxusvandamál

Vandamál fólks eru eins misjöfn og fólkið er margt. Þó ætla ég að leyfa mér að fullyrða að vandamál þau sem ég þarf að stríða við þessa dagana flokkast undir allt, allt annað en vandamál. Mætti frekar kalla þetta ofdekur.
Vandamál 1: Um daginn fékk maðurinn minn að gjöf stóran pappakassa fleytifullan af ítölsku góðgæti. Í kassanum mátti meðal annars finna kaffi, sólþurrkaða tómata og papriku, sinnep, pasta og ýmislegt annað gott. Gjöfin skapaði vandamál því að plássið í eldhúsinu er afar takmarkað og það var einfaldlega ekki pláss fyrir allt þetta.
Vandamál 2: Heimsótti Magasin bæði í dag og í gær í þeim tilgangi að kaupa föt (það þarf nú einhver að styðja við þá Bónusfeðga). Karen Millen deildin var þó nokkrum flíkum fátækari eftir þessar heimsóknir mínar. Ég hjólaði heim á leið sæl og glöð með fenginn, en hvað gerðist þegar ég kom heim; ég hef varla pláss fyrir nýju fötin mín af því að það er bara einn fataskápur á heimilinu.
Ó mæ god... ég veit ekki hvað ég á að gera, hef ekki pláss fyrir ítalskar sælkeravörur og nýju flottu fötin mín....hvílíkt vandamál... það á enginn jafn bágt og ég.....
Ég skammast mín. Ekki nóg með það að maður sé svo lánsamur að tilheyra hinum vestræna heimi, þá tilheyrir maður líka þeim hluta hins vestræna heims sem hefur það best. Það er nefnilega til fólk sem hefur af því stöðugar áhyggjur hvort það fái eitthvað að borða í dag eða á morgun, sumt af þessu fólki veit vel að það fær ekkert að borða hvorki í dag né á morgun. Margt fólk á ekkert. Ekki neitt.
Og ég lít á það sem vandamál að hafa ekki nóg pláss fyrir allan lúxusinn.
Ef þetta er ekki óréttlæti, þá veit ég ekki hvað óréttlæti er. Ég hef svosem enga patentlausn á þessu óréttlæti heimsins, en hlýt þó að geta gert eitthvað í þessu, ekki satt?
Anna Lilja

2 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

í guðs bænum, komdu bara með þetta hingað, lúxusvandamálum af öllu tagi er tekið fagnandi á mínu heimili.
JF

1:22 PM  
Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

OK, aldrei að vita nema ég taki þig á orðinu, mæti einn daginn til þín með vörubílsfarm af lúxusvandamálum og öðrum vandamálum.
AL

3:56 AM  

Post a Comment

<< Home