Monday, February 05, 2007

Mary á afmæli í dag

Best að halda áfram á konunglegu línunum. Mary krónprinsessa á afmæli í dag og er 35 ára gömul. Ekki veit ég hvernig hún hyggst halda upp á daginn, tilheyri ekki "hendes indreste kreds". Strætóar flagga og ofan á háhýsum og lægri húsum blaktir Dannebrog við hún. Gaman hvað Danir eru ósparir á fánann sinn.
En svo við víkjum nú aftur að krónprinsessunni fögru; hún er semsagt 35 ára gömul, viðskiptafræðingur að mennt, kynntist Friðriki í Sidney í Ástralíu árið 2000, en hann var þar staddur til að fylgjast með Ólympíuleikunum. Það er víst eitt af aðalstörfum hans; að þvælast um heiminn og fylgjast með hinu og þessu. Með þeim tókust ástir og þá varpaði margur Daninn öndinni léttar, því framferði Friðriks hafði lengi verið á þann veg að menn voru farnir að óttast að hann myndi aldrei festa ráð sitt. Hann hafði verið orðaður við ótal kvensur, drakk ótæpilega og þótti svallsamur með endemum.
En nú þykir Friðrik hafa þroskast. Ég meina, com´on - þó það nú væri. Maðurinn er 38 ára gamall. Ef hann væri ekki farinn að þroskast, þá væri hann þroskaheftur. Sem hann er (held ég)ekki, kannski bara svolítið seinn til.
En þessi pistill átti að vera um Mary, en ekki Friðrik. Mér finnst hann bara miklu meira spennandi. ;-)
En kæra Mary, til hamingju með daginn. Viltu vera svo væn að hætta að ganga með hatta sem líta út eins og blómapottur á hvolfi frá Konunglegu postulínsverksmiðjunum. Svona klæðir enginn, enginn, enginn sig sem er yngri en 75 ára. Nema þú.
Anna Lilja

1 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

já, og gleymdi því að nýja klippingin er ljót!!!!

12:57 AM  

Post a Comment

<< Home