Tuesday, April 10, 2007

Blogg um ekki neitt

Vill einhveeeeeeeeeeeeeeeeer segja mér afhverju ég er að blogga núna?
Fyrir það fyrsta á ég að skila 8 blaðagreinum næstu 2 vikurnar, það er geeeeeeeeðveikt að gera í vinnunni, ég sit hérna og horfi á þvottafjall dauðans (Hrannar á Íslandi og ég ein í þvottadeildinni) og það versta er að ég á eftir að finna til nesti morgundagsins, bæði fyrir börn og fullorðinn (mig).
Annars hlakka ég alveg óskaplega til síðasta vetrardags, nánar tiltekið hins 18. apríl en þá er förinni heitið í Cirkus bygginguna hjá Vesterbro. Þar er ætlunin að njóta samvista með Sálinni og Stuðmönnum og taka kannski nokkur létt spor með henni Jónínu og fleirum.......... jiiiiiiiii, hvað ég hlakka til.
Anna Lilja
P.s. ein uppáhaldslínan mín úr kveðskapi Stuðmanna er :
"Þið verðið að trúa okkur, við segjum það satt. Stóreflis UFO af himnum ofan datt. Við hefðum tekið myndir, en höfðum engan kubb. Sönnunargagnið er astraltertugubb."
Er þetta ekki bara tær snilld?
Eða þetta: "Þetta er langbesta sjoppa sem að ég hef komið í. Hún er æðislega góð."
Og hvað þá með þetta?:
"Vi er fire og flamme og kommer med det samme"
Mesta snilldin er samt:
"Svaraðu í símann, Frímann."
Já, lesandi góður, það er rétt til getið hjá þér. Ég er að reyna að finna mér eitthvað annað að gera en að vinna. Fer nú að sofa, Go´nat ;-)

Wednesday, March 28, 2007

Dauði Danans

Ekki var nú seinna að vænna en að Baunin Anna breyttist endanlega í hinn bíllausa dana dauðans, það er öllum hollt og skyllt að prófa það líka meðan dvalið er í danaveldi. Aftur á móti eru dagar mínir sem bíllausrar baunar nú taldir, enda rúmlega búin að taka út skylduna á þeim tæplega 3 árum sem ég hef búið hér. Hér hef ég hjólað frá fjöru til fjalls, og ekki kallað það ömmu mína að hjóla jafnvægishjólun með barn í stól, haldandi á bleyjum og með stóra innkaupapoka sitthvoru megin á stýrinu. Ég hef líka hjólað í öllum útgáfum af veðurbrigðum, sól, stormi, snjó, rigningu, rigningu og rigningu (en þó aldrei með regnhlíf), og verð ég að segja að af þeim finnst mér nú blíðviðrið skemmtilegast fyrir þessa tegund farartækis.

En svo ég víki nú sögunni aftur til Breiðafjarðareyja, er ég nú orðinn stoltur eigandi sjálfrennireiðar, og þeirrar ekki af verri gerðinni! Hér er um að ræða silfurgráan Skoda Felicia STATION bíl, frá árinu 1998. Bíllinn sá hefur hvorki án samlæsingu né rafdrifnar rúður, en er aftur á móti útbúinn bæði hita í sætum OG kassettutæki. Já haldiði ykkur bara, og enn fastar þegar þið mætið fjölskyldunni á Øresundsvej syngjandi af gleði á sportinu í kagganum. Þetta er sko almennilegur bíll ;)

Það eina sem setur nokkuð strik í reikninginn (og sönginn) er sú staðreynd að kassettur virðast einhverntímann á síðustu árum hreinlega hafa horfið af markaði, af óskiljanlegum ástæðum, og veitist því erfitt að verða sér úti um fjölbreytta músík. Ég auglýsi því hér með eftir slíkum gersemum, svo ef þið liggið með gamlar kassettur með lögum unga fólksins yrði þeim tekið fagnandi á heimili skódans.
Reyndar mega þær næstum vera með hverju sem er, bara ekki þýsku jóðli!

með ósk um góðar stundir
Skódína

Thursday, March 15, 2007

Pylsuvagnar

Þetta blogg er bara gjörsamlega steindautt. Þá er nú lítið annað að gera en að bæta úr því.
Hjólaði framhjá pylsuvagni í dag á Frederiksberg Allé. Eins og alþjóð veit, þá heita danskir pylsuvagnar alltaf eitthvað, það er yfirleitt skrifað með stórum stöfum fyrir ofan lúguna. Oftast heita þeir dúndrandi frumlegum nöfnum eins og "Per´s pølser" eða "Pia´s pølser". Það er þó einn sem stendur alltaf rétt hjá Vesterbro stöðinni sem heitir "Lindgren´s Foderbræt" eða "Fóðurbretti Lindgrens. Vá, en girnilegt nafn... eða þannig.
En nema hvað, téður pylsuvagn á Frederiksberg Allé vakti athygli mína fyrir þær sakir að hann hét "Sømanden". Hvað er svona pylsulegt við það? Ekki neitt.
Sá einu sinni pylsuvagn sem hét "Røde pølser" en einhver húmoristinn var búinn að tússa í nafnið þannig að vagninn bar nafnið "Røve pølser". Þýði nú hver sem betur kann.
Anna Lilja á fimmtud. kvöldi klukkan nákvæmlega 8 mínútur yfir 10 og er að fara að sofa.

Wednesday, February 28, 2007

Dani dauðans

Jæja, er í þessum skrifuðum orðum að ganga frá sölu á bílnum mínum. Eftir þann gjörning stend ég bíllaus og eins og EKTA Dani. Ekta Danir eiga nefnilega ekki bíl, þeir fara allra sinna ferða á tveimur jafnfljótum, hjóli eða á vegum þess ágæta fyrirtækis Movia, sem rekur almenningssamgöngur (a.m.k. á Kaupmannahafnarsvæðinu).
Fyrir einstakling sem hefur löngum litið á bílinn sem þarfasta þjóninn, eiginlega sem yfirhöfn sem maður bregður sér í þegar farið er af bæ, þá verður þetta heilmikil breyting á lífinu og tilverunni. En alveg örugglega mjög holl breyting. Ég hef reyndar haft þó nokkuð aðlögunartímabil, hef farið flestra minna ferða á hjóli undanfarna mánuði, en hef samt alltaf haft aðgang að bíl. En það er alveg ljóst að með þessari breytingu færist ég vissulega nær hinum almenna Dana í lífsstíl og háttum. Er að breytast í Dana dauðans.
Hef reyndar fengið þá tilfinningu áður. Var einu sinni á leið í Irma, á hjóli, í stígvélum, með plastpoka í bakpokanum (svo ég þyrfti ekki að kaupa poka í búðinni) að fara að kaupa Suður-Jóska spægipylsu. Man eftir að ég hugsaði á leiðinni í búðina; mikið rosalega er ég orðin eitthvað dönsk. Nú er ég að verða danskari.
A.L.

Thursday, February 22, 2007

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Þetta með dani og veðurteppt er víst ekki nýtt af nálinni. Mjög seint á 20. öldinni bjó vinafólk mitt í Árósum og stundaði þar nám. Fyrsta veturinn þeirra vöknuðu þau einn morguninn við að snjódrífa hafði fallið um nóttina og tekist að mynda um það bil 2 cm snjólag. Á planinu spóluðu í öllum hornum bílar á sumardekkjum, svo Einar ákvað að vetrarskórnir væru skynsamlegasti fararskjótinn þann daginn, skellti sér í þá og arkaði af stað í 3 km göngu í skólann. Með roð í kinnum og vindblásið hárið mætir hann í skólann, en kemur þar að öllum dyrum lokuðum, skólanum aflýst vegna veðurs og færðar þann daginn!

Það verður að fylgja sögunni að hér er verið að tala um HÁSKÓLA, ekki barnaskóla ;)

Skrifað af konunni, sem ekki einu sinni gat haldið sig innivið í storminum mikla 2005
JF

leti !

Snjóstormurinn "ógurlegi" vard thess valdandi ad ég fékk frí í skólanum í dag !
Á menntaskólaárunum hefdi ég hoppad hæd mína og gladst meira en gott thætti en í dag vard ég bara pirrud.
Ástæda:
Var vakin upp klukkan 6 í morgun af bekkjarsystur minni sem fannst ástæda til ad láta mig vita ad hún og 2 adrir myndu ekki komast í skólan í dag vegna vedurs. Hana grunadi einnig ad 4 adilinn myndi ekki koma vegna thess ad hún bor ud på landet. Klukkan 6.02 svaradi ég ad ég hefdi hugsad mér ad mæta.
Tek thad fram ad skólinn byrjar klukkan 9.30 og ad vid erum bara 5 í bekk.
Klukkan 7.05 hringir svo annar samnemandi minn og tilkynnir mér ad enginn theirra muni mæta og hann sé búinn ad hringja í skólann og láta vita ad engin theirra komi. Ég sé mig thá tilneydda til ad "skrópa" (ég gæti jú alveg mætt thví ekki er ófært med metro frá amager til frederiksberg) thví ekki hef ég mikid ad gera í nuddpraktíktíma ein.
Svo nú sit ég hér heima vid tölvuna skrópandi í skólanum (sem nota bene kostadi formúgu) vegna thess ad dönsku samnemendur mínir eru of latir til ad fara út og moka nokkra sentimetra af snjó eda drattast út og taka lestina í bæinn. Ekki skorti thá tímann ef meirihlutinn var kominn á fætur klukkan 6!!

Thannig ad í dag er ég útlendingurinn sem læt hauglata innfædda fara í taugarnar á mér !!

Gódar stundir
-R

Veðurtepptir Danir

Meira um danskan snjó. Jújú, það er svosem snjór hér. Sennilega myndu flestir Íslendingar kalla þetta svona í meðallagi. Að mati Dana er þetta aftur á móti ófærð og illviðri. Fór með Helgu í leikskólann í morgun. "Jæja, það verða víst ekki mörg börn hér í dag," sagði leikskólakennarinn. "Margir hafa hringt og segjast vera veðurtepptir."
VEÐURTEPPTIR!!! Er búin að fara út um hálft Frederiksberg í morgun og ekkert hamlaði för minni.
Ætla ekki að vera þannig útlendingur sem læt innfædda fara í taugarnar á mér. Er svosem alveg sama hvort Danir telja sig vera veðurteppta eða ekki. En segi bara enn og aftur: It´s all in the angle of approach.
Anna Lilja kl. 10:45

Wednesday, February 21, 2007

Kannski var þetta snjóstormur eftir allt saman

Þarf aðeins að endurskoða það sem ég sagði um snjóstorminn. Keyrði upp til Hellerup í dag og þar var nú talsvert meiri snjór en í Frederiksberg og ekki laust við að það grillti í snjóstorm. Það tók okkur um klukkutíma að komast heim, en að öllu jöfnu tekur það um kortér. Skýringin er fyrst og fremst sú, að Danir kunna hreinlega ekki að keyra í snjó, hvar ættu þeir svo sem að læra það, það snjóar svona 3svar á ári? Afleiðingin verður sú að þeir keyra á 20 km hraða. Afleiðingin af því verður sú að það tekur óratíma að komast leiðar sinnar.
En nú bylur á glugga, ætla að fá mér heitt kakó ;-)
A.L.

Danskur snjóstormur

Hér í veldi Dana var spáð snjóstormi í dag. "Það verður líklega ófært á morgun," sagði nágranni minn brúnaþungur í gær. Í morgun gaf á að líta um það bil eins millimetra þykkt snjólag, svo lítið að varla sást. Hitti nágrannann aftur, "Jæja, gott að veðurspáin stóðst ekki," sagði ég hressilega. "Jú, það snjóaði sko í nótt. Ertu ekki búin að líta út um gluggann?"
Hér á uppáhaldsorðatiltækið mitt vel við: It´s all in the angle of approach
A.L. á miðv. degi heima með veikt barn.

Tuesday, February 20, 2007

Klámhundar, kennarar og fleira

Hæ, súperblogger komin frá Íslandi. Sit nú í lazyboy og horfi á Nynne. Býsna skemmtilegur þáttur. Nynne langaði til Afríku, átti ekki aur og neytti ýmissa bragða til að leysa málið. Hafði samband við hina ýmsu fjölmiðla og bauðst til að skrifa ferðagreinar ef þeir bara borguðu ferð og uppihald fyrir hana. Enginn fjölmiðill þáði þetta gylliboð og þá ákvað Nynne; ef ég kemst ekki til Afríku, þá kemur Afríka til mín og bjó til svona afrískt umhverfi heima hjá sér. Frábær lausn.
Fyrir þá sem ekki vita er Nynne Kaupmannahafnarútgáfan af hinni bresku Bridget Jones, álíka seinheppin týpa.
Var á Íslandi í tvær vikur. Þar á landi er eftirfarandi efst á baugi:
Til stendur að halda alþjóðlega klámráðstefnu á landinu. Mín skoðun: No way Jose að Ísland eigi að vera vettvangur útlenskra klámhunda. Allir vita að þessi iðnaður tengist ýmis konar glæpum og misnotkun á fólki.
Einhver Halla fór víst út að borða með Jude Law. Mín skoðun: Ég myndi vilja flest annað en að geta mér frægðarorð fyrir að deita frægan mann. Myndi til dæmis ekki vilja vera þekkt það sem eftir er ævinnar sem Anna Lilja sem drakk espresso með Meatloaf.......
Kennarar eru óánægðir með launin og ef fram fer sem horfir stefnir í harða kjarabaráttu. Mín skoðun: Í fyrsta lagi er þetta engin frétt. Hvernig er annað hægt en að vera óánægður með þessi laun? Mikið yrði það annars íslensku þjóðinni til framdráttar (skemmtilegt orð, sé klámráðstefnan höfð í huga) ef almenningur myndi nú taka sig saman um að gera vel við þá sem annast börn og kenna þeim. Þá værum við flott þjóð. Værum líka að senda þau skilaboð að við teljum börn og menntun skipta máli.
Anna Lilja á þriðjudagskvöldi klukkan rúmlega 9.
Þorró á laugardagskvöldið, partý hjá Jónínu á undan. Stefnir ekki bara í hörkufyllerí?
Eitt í viðbót: Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, þarf að segja meira? Lesið hana.

P.S.: Var að browsa á netinu, mikið rætt um klámráðstefnuna og í einni umræðunni var linkur á síðu með því virðulega nafni: gofuckyourself.com en þar er mikið rætt um þröngsýni Íslendinga og þeim líkt við ekki ómerkari menn en Talibana.

Þó nokkrir landar hafa látið gamminn geysa á þessari síðu; eftirfarandi tilvitnun er tekin eftir íslenskum einstaklingi með notendanafnið KMBucks: Enforcement... Iceland has very little crime, and thus we have a very small police force. Having them spending the day hunting down every issue of Hustler doesnt seam logical.Also there has been a public outcry to ratification of the penal code to allow such things as "reasonable pornography" but the fucking feminists have always managed to shut people down.No offence ladies, but this happens when women get too much influence.

Þetta er að sjálfsögðu tekið beint upp og engu breytt. Kennarann klæjaði auðvitað í puttana að leiðrétta þessa skelfilegu ensku. Ætla að öðru leyti ekkert að tjá mig um þessi heimskulegu skrif.