Saturday, February 03, 2007

Fitund

Í minni fjölskyldu fyrirfinnst það misskemmtilega hugtak fitund, sem er eiginlega vitundin um að vera feitur. Fitund er semsagt það hugarástand að finnast maður vera feitur, og þarf ekki endilega að vera í nokkrum tengslum við raunverulegt líkamsástand, þó stundum fari það auðvitað saman. Maður getur til dæmis haft háa fitund einn daginn, en lága næsta, þó kílóatalan sé nákvæmlega hin sama.

Fitund manns getur auðvitað og eðlilega haldist í hendur við aukna kílóatölu, og í mínu tilviki gerir hún það. Í velsæld minni í Danaveldi hafa bæst á mig óumbeðin og óvinsæl aukakíló sem hafa valdið þó nokkurri fitund, mismikilli eftir dagsformi. Ég hef nú í nokkurn tíma gripið til ýmissa afsakana fyrir þessari fitundaraukningu t.d. því að fötin mín hafi hlaupið í þvotti og öðru í svipuðum dúr.

Í fyrradag tók þó steininn úr fitund minni frá upphafi. Í stresskasti á leið í vinnu greip ég gallastressbuxur úr þvottahrúgunni og ætlaði að henda mér í þær. Það gekk aftur á móti seint og illa og ætlaði ég aldrei að koma helv. brókunum upp lærin. Ekki gat ég einu sinni selt sjálfri mér það að buxurnar hefðu skyndilega hlaupið, jafn margþvegnar og þær eru. Mér var þvert um geð að gefast upp, og vann því öttullega í að ýta öllu sem fyrir varð ofar á líkamann, í algerri mótsögn við þyngdarlögmálið náttúrulega. Þessarri baráttu lauk svo með því að í buxurnar fór ég. Með kílóin í krumpum yfir strengnum verður mér litið niður eftir löppunum og sé þá að þær hafa ekki eingöngu þrengst til muna, heldur líka styttst um 30 sentimetra!

Ímyndið ykkur fögnuð minn og fitundarfrelsi þegar ég áttaði mig á því að þarna stóð ég í buxum unglingsins á heimilinu, og hafði meira segja náð að renna upp!

JF
Nú í mánaðar fitundarfríi ;-)

1 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

hahahahahaha........... þú ert ekkert smá fyndin.
A.L.

8:38 AM  

Post a Comment

<< Home