Thursday, November 16, 2006

My cup of tea

Alltaf er maður að upplifa eitthvað nýtt, ekki síst hér í Kóngsins K. Sem betur fer. Fór áðan á hreint út sagt dásamlegan stað. Þegar maður upplifir eitthvað frábært, þá á maður að sjálfsögðu að deila lífsreynslunni með öðrum (að því gefnu að almenn siðferðismörk séu virt).
Dásemd þessi er testofa á 2. hæð í Illum. Testofan heitir ChaTang Tearoom, þar má fá alls konar te (nema hvað) kaffi, kökur og ýmsar hefðbundnar enskar veitingar eins og samloku með agúrku og enskar scones, sem eru brauðbollur. Mér er ljúft að segja frá því að ég fékk mér karamellute og scone með lemoncurd, sem er nokkurs konar sítrónusmjör. Alveg hrikalega gott.
Testofan er eiginlega inni í miðri undirfata- og náttfatadeildinni og það er hið besta mál. Skemmti mér konunglega við að horfa á mann einn velta vöngum yfir því hvort hann ætti að velja hvítar bómullar Sloggi eða ögrandi svart nærfatasett með rauðum blúndum. Eftir mikil heilabrot valdi maðurinn hið síðastnefnda, gott hjá honum! Nú verður einhver kona glöð (nema hann ætli að eiga þetta sjálfur, maður veit jú aldrei...)
Anna Lilja

0 Comments:

Post a Comment

<< Home