Friday, November 24, 2006

Ellismellur dauðans

Hef ekki bloggað í nokkurn tíma og það eru 2 ástæður fyrir því.
Ástæða nr. 1: Hef ekki haft tíma.
Ástæða nr. 2: Þetta blogg er samstarfsverkefni nokkurra einstaklinga. Ákvað að gefa öðrum tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Þegar maður var svolítið yngri, kannski svona 20 árum yngri eða svo (í Flensborg, með Jónínu, í ensku hjá Halldóri, eða í landafræði hjá Gerta Lár...) þá var 37 ára eitthvað sem maður leiddi ekki einu sinni hugann að. Þetta var svo fjarlægt, svo gamalt og svo kellingalegt. Og núna er ég 37 ára og ég er sko ekkert kellingaleg. En að mati snyrtivöruframleiðanda er ég komin á grafarbakkann.
Snyrtivöruiðnaðurinnn veltir einhverjum milljörðum billjarða á ári með því að lofa konum eins og mér að þær verði yngri á örskotsstundu og “endurheimti æskuljómann á augabragði” (tekið úr auglýsingu) ef þær nota eitthvað tiltekið krem.
Nöfnin á þessum kremum eru nú ekkert venjuleg. Ég á til dæmis eitt sem heitir “Anti Gravity”, en það ku þýða “Á móti þyngaraflinu”. Ef ég man rétt (og það geri ég alltaf) þá eyddi Isaac Newton ófáum stundunum hangandi undir amerísku eplatré bíðandi eftir því að epli félli niður á haus hans og þannig uppgötvaðist þyngdaraflið. En nú hefur snyrtivöruframleiðandi að nafni Clinique fundið upp krem sem á að vinna gegn þessu undirstöðuafli.

Annars átti eftirfarandi samtal sér stað um daginn, þegar undirrituð brá sér í Matas til að kaupa augnkrem:
Kurteis og vel menntuð íslensk kona búsett í Frederiksberg: „Góðan dag. Áttu til eitthvað gott augnkrem?”
Afar alúðleg dönsk afgreiðslustúlka: „Já, það á ég. Hvað viltu að það geri fyrir þig?”
Kurteis og vel menntuð íslensk kona búsett í Frederiksberg: „Ja, láta mig líta betur út.”
Afar alúðleg dönsk afgreiðslustúlka: „Við eigum til dæmis þetta hérna.” (Tekur niður krús af hillu).
Kurteis og vel menntuð íslensk kona búsett í Frederiksberg: „Og hvernig virkar þetta?"
Dönsk afgreiðslustúlka: „Sléttir úr hrukkum.”
Kurteis og vel menntuð íslensk kona búsett í Frederiksberg: „Það er nefnilega það.” (hugsar: „Jahá, helv... beyglan, svo henni finnst ég þurfa á því að halda.”) „Jæja, ætli ég kaupi þetta ekki.”
Dönsk og AFAR dónaleg afgreiðslustúlka: „Svo ætla ég að gefa þér hérna prufu af ægilega góðu serum.”
Kurteis og vel menntuð íslensk kona búsett í Frederiksberg: „Og hvernig virkar það?”
Danskur hegðunarhryðjuverkamaður: „Ja, sko, ef þú notar það með augnkreminu þá gefur það tvöfalda virkni.”
Réttir kurteisu og vel menntuðu íslensku konunni búsettri í Frederiksberg lítinn pakka sem á stendur: „Deep wrinkle concentrate”.
Döh... þarf ég að segja meira?? Fer aldrei aftur í Matas (nema kannski þegar það er tilboð á Dior möskurum).

Fór annars aftur á Spiseloppen í fyrradag og það var ÆÐI – er strax búin að plana næstu heimsókn þangað.
Fékk bréf frá Lortinum í gær - skelli því á bloggið þegar ég má vera að.
OG.... þetta er skrifað klukkan 9:17 á fögrum föstudagsmorgni
Anna Lilja

0 Comments:

Post a Comment

<< Home