Wednesday, November 15, 2006

Laugardagskvöld í Kristjaníu

Undirrituð skellti sér í fríríkið Kristjaníu síðastliðið laugardagskvöld. Tilgangur fararinnar var nú ekki sá að festa kaup á ólöglegum vímugjöfum, nei ekki aldeilis, förinni var heitið á margrómaðan veitingastað sem heitir Spiseloppen.
Ekki var ég nú ein í för, var í félagsskap stórglæsilegra systra af Suðurnesjunum. Systur þessar komu hér til Köben að því er virðist í þeim tilgangi helstum að skoða innviði H&M . Systurnar eru með endemum glæsilegar og hafa báðar tekið þátt í fegurðarsamkeppnum með góðum árangri. Því þótti ekki annað við hæfi en að eyða dágóðum tíma í snyrtingu og fegrun áður en haldið var til móts við systurnar, en þær dvöldu á hóteli á Vesterbrogade. Þegar þangað var komið var ljóst að systurnar höfðu vakið athygli karlpeningsins á hótelinu, en á meðan sögumaður staldraði þar við var barið reglulega á dyr herbergisins og skrækt með digrum karlarómi „room service” og svo var flissað fremur ámátlega. Systurnar létu þessa áreitni lítt á sig fá, enda líklega vanar athygli gagnstæða kynsins. Nú spyr ég: Hvaða heilvita manni dettur í hug að hann lendi á sjens með því að breyta röddinni og þykjast vera þjónustustúlka?
Til Kristjaníu fórum við, það gekk reyndar erfiðlega að finna staðinn og ekki bætti úr skák að uppdópaður unglingahópur afvegaleiddi okkur með því að vísa okkur ranglega til vegar. En Spiseloppen er einfaldlega frábær staður, ekkert meira um það að segja og eru allir hér með hvattir til að fara þangað.
Kvöldið náði samt hápunkti, þegar við gengum út af staðnum og mættum þar „innfæddum” Kristjaníubúa. Maðurinn var afar viðræðugóður og hóf samtalið á þessa leið: „Hafið þið prófað mariuana?” Þegar svarið var nei, bauðst hann til að bæta úr því. Tilboðinu var ekki tekið.
Um var að ræða 49 ára gamlan mann sem hafði búið í fríríkinu í 30 ár og lýsti lífinu þar sem paradís á jörðu. „En það breyttist þó til hins verra þegar þeir fóru að láta okkur borga skatta,” sagði hann og stundi þunglega, mæddur af óréttlæti heimsins. Fyrir mig, sem stunda mannlífsrannsóknir í frístundum, var þetta hreinasta gullnáma. Síðan var hann samferða okkur á Metro stöðina og kjaftaði á honum hver tuska. Spurður um erindi sitt niður í bæ sagðist hann vera að fara á Nørreport, þar beið dóttir hans eftir honum, en hún er hjúkrunarfræðingur og var að fara á næturvakt. Hann var ekki hrifinn af því að hún væri að ferðast ein í neðanjarðarlestunum að næturlagi og var því að fara til að fylgja henni. Frekar krúttlegt. Ekki alveg búinn að reykja frá sér ráð og rænu, blessaður.
Fékk æðislega heimsókn frá Íslandi í dag og á von á annarri, ekki síðri á sunnudaginn. Mikið að gera í skriftum, sem betur fer hefur Lortinn alveg látið mig í friði. Vona að ég heyri aldrei í honum aftur. Hann er ekki "my cup of tea" eins og Enskurinn segir.
Allir á Spiseloppen!
Anna Lilja

1 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

Ég segi nú ekki annað en, vegir þínir eru órannsakanlegir Anna, og liggja til allra átta hér í Köben.

Líst vel á þetta með Loppuna, hélt nú samt fyrst að þetta væri svona staður fyrir óhamingjuaðila með flær:)...og þetta er ekki meint sem fordómar!

4:37 AM  

Post a Comment

<< Home