Monday, November 06, 2006

Heimferðir

Þá er að kveldi komin heimferðin til Íslands, og á morgun hefst heimferðin til Danmerkur. Agalegt að vera svona illa áttaður á hvar maður á heima. Í Köben saknar maður Hafnarfjarðar, en í lok heimsókna þangað hlakkar mann ótrúlega til að koma heim til stór-Amagersvæðisins. Undarlegur andskoti það!
Til að samræma þessa tvo heimahaga ákvað ég að taka bara íslensku heimahagana með til Köben og lagðist því í víking í íslenskum verslunum í dag og kaupa það sem handhægast er að flytja, það er að segja matvöru. Ég ætti kannski öllu heldur að segja matvörUR, því í fleirtölu voru þær, og kem því á danska grund hlaðin íslensku góðgæti af öllu mögulegu og ómögulegu tagi. Í kassanum góða sem með er í för kennir ýmissa grasa, og til að gefa lítið tóndæmi um innihald hans er þar að finna: lifrarpylsu, kokteilsósu, prins póló, harðfisk, Frón kex, SS pylsur, suðusúkkulaði, malt og appelsín. Ég tek þó fram að þessa verður neytt sér og í sitthvoru laginu, það yrði lagleg súpa ef öllu væri saman blandað.
Í ofanálag við öll þessi matvæli inniheldur farangurinn íslenska geisladiska, bækur og myndir, auk þess sem einhver eintök af mogganum þóttu alveg ómissandi til að halda uppi íslensku heimahagastemmningunni. Íslenskt, já takk, heima hjá mér á næstunni :)

Skemmtilegt dæmi um þennan stórrugling á heimasvæðum og heimatungumálum er annars þegar sonur minn segir stundarhátt í hvert sinn sem einhver hér opnar munninn og segir eitthvað: Mamma, veistu hvað, þessi talar íslensku!

Sjáumst heilar í Köben
Jónína

2 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

Hæ pæ og velkomin heim! Hafnarfjörðurinn stendur svosem alltaf fyrir sínu, en það gerir nú Köben líka...

4:32 AM  
Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

P.S. Gleymdi að skrifa undir commentið
Anna Lilja

4:33 AM  

Post a Comment

<< Home