Thursday, November 02, 2006

Af Tjöllum og akademískum klámhundum

Hædíhó. Einn meðlimur kaffihúsaklúbbsins kom frá London seint í gærkvöldi. Tjallinn er alltaf jafn alúðlegur, vildi þó óska að þeir hættu að kalla mig "madam" í öðru hvoru orði; finnst ég einhvernveginn verða sextíu ára og eitthvað þegar ég er ávörpuð á þennan hátt. Það verður ekki af Tjallanum skafið, kurteis er hann. En mikið assgoti er hann ljótur. Hef svosem áður komið til Englands og alltaf undrað mig jafn mikið á skorti á líkamlegu atgervi hjá þessari miklu menningarþjóð.
En það gerist alltaf það sama þegar ég stíg út úr flugvélinni á enskri grundu og ég veit að fleiri ganga í gegnum svipað ferli:
Fyrsta stigið er afneitun: maður telur sér trú um að það sé hrekkjavaka og vinsælustu grímurnar þetta árið séu Karl Bretaprins, Austin Powers eða Victoria Beckham.
Næsta stig felur í sér áfall: Nei... þetta getur ekki verið... Sé ég ofsjónir? Verð að setjast niður á næsta pöbb og róa taugarnar....
Þriðja og síðasta stigið felur í sér að viðurkenna ástandið: Bretar eru ljótir. Sorry mates.
Fyrst verið er að fjalla um ókosti Bretanna þá verð ég að minnast á annað: þessa áttavillu hjá þeim. Maður á gjörsamlega fótum sínum fjör að launa þegar þeir koma æðandi úr kolvitlausum áttum - afhverju geta þeir ekki haft sömu áttir og aðrar siðmenntaðar þjóðir? Ætli saklaus íslenskur vegfarandi yfir götu veit hann ekkert í hvaða áttir hann á að horfa. Að vísu er stundum málað á götuna: "Look right" eða "Look left" en líti maður til vinstri, þá kemur bíll brunandi frá hægri og líti maður til hægri þá er viðbúið að flugvél komi úr austri. Hægri og vinstri að breskum sið er bara allt öðruvísi en hjá öðru fólki. Tony Blair ku til dæmis kenna sig við vinstri stefnu og fór mikinn í fyrstu kosingabaráttu sinni undir kjörorðinu "The new left". Er það ekki fyrirtaks dæmi um að vinstri þýðir hægri og hægri þýðir bara eitthvað allt annað?
Eins og Jónína bendir réttilega á eru alhæfingar að sjálfsögðu stórhættulegar og því vill höfundur benda á að þessi skrif eru einungis ætluð til þess að létta lund lesandans. Auðvitað eru ekki allir Bretar ljótir, skárra væri það nú. Jónína tínir til tvö dæmi, en vissulega eru til fleiri fríðir Bretar. Sjáið til dæmis William prins - ekki er hann nú neitt slor! Eða hvað um .... ja...humm... jæja, þið vitið hvað ég á við.

Klámhundar eru merkileg fyrirbæri og þá má finna víða. Eftirfarandi samtal átti sér stað á kaffihúsi einu í Kristjánshöfn í síðastliðnum mánuði. Þar höfðu tvær föngulegar 37 ára gamlar konur setið um stund við þá iðju að ryðja út úr sér klámbröndurunum og var hlegið ansi stórkarlalega.
Jónína: "Við erum klámhundar."
Anna Lilja: "Já, en ekki svona venjulegir dónalegir klámhundar."
Jónína: "Nei, það er satt. Við höfum klassa og stíl."
Anna Lilja: "Já, við erum svona akademískir klámhundar."

I rest my case ;-)
Anna Lilja

2 Comments:

Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

Ég verð að skrifa undir ljótleika bresku þjóðarinnar, en bendi þó að hættulegt er að alhæfa um heila þjóð. Gott dæmi um það er íslenski sagnfræðingurinn sem nú hefur kært Extra Bladet fyrir að alhæfa um okkar ástkæru ylhýru þjóð að hún gangi um og reyni að innlima alla undir íslenska fánann. Ekki það að ég reyni ekki stöðugt að íslenska alla sem ég hitti fyrir hér í þessu landi og ekki eru íslenskir fyrir.

Það eru líka til laglegir bretar, Hugh Grant og Colin Firth eru góðir fulltrúar. Dæmin eru hins vegar ansi fá.

Kv. Jónína

4:37 AM  
Blogger Kaffihúsaklúbburinn said...

Hugh Grant finnst mér alls ekki dæmi um laglegan breta.. fussumsvei

raggalo

9:31 AM  

Post a Comment

<< Home